Slökun getur breytt öllu!

18/10/2014 16:11

Það er svo makalaust að þegar maður sleppir takinu og leyfir sér að fljóta með í orkuna og er tilbúin að opna fyrir nýjum tækifærum, þá er eins og flóðgáttir opnist. Alls konar tækifæri streyma að fyrir þig að velja úr og takast á við. Tækifæri eru ekki endilega alltaf svo auðveld, þau geta verið dulbúin í hvers kyns vinnufötum sem líta beinlínis út eins og erfiðleikar en þegar upp er staðið er þetta einmitt það sem þig vantaði. Að vera án þess að gera nokkuð er eitthvað sem allir ættu að tileinka sér á hverjum degi. Bara sitja og einbeita sér að andardrættinum eða horfa á fuglana næla sér í lífrænu sólblómafræin sem ég setti í fuglahúsið og sjá gleðina sem fylgir er dásamlegt. Ég nefndi lífrænu sólblómafræin ekki að því að það sé endilega nauðsynlegt en það var það eina sem ég fann fyrir fuglana sem koma á hverjum degi og ná sér í fræ, og er þetta orðin svolítill brandari á mínu heimili þessi blessuð sólblómafræ. En smáfuglarnir launa mér það margfalt og hanga á greinunum í garðinum mínum og syngja þar til ég vakna og næ í fræ handa þeim og auðvitað epli handa þeim stærri. Að einbeita sér að einhverju svo smáu eins og smáfuglunum getur verið svo mikil hvíld og gleði í annríki dagsins og þannig opnað fyrir gleði og ánægju sem kannski var ekki endilega til staðar. Slökun hvers konar og leiðir til að slaka verða sjaldan ofmetnar og er ég þeirrar skoðunar að það ætti að kenna þetta í grunnskólanum. Leið til að sleppa streitu og álagi dagsins og koma tilbaka eins og ný manneskja. Ég veit fátt yndislegra en að leiða Jóga Nídra djúpslökun í jógasalnum mínum og af afloknum tíma sjá úthvíld andlit geisla af ánægju. Þess vegna er ég óendanlega hamingjusöm og þakklát fyrir að hafa komið nýja slökunardisknum mínum áleiðis þar sem ég leiði Jóga Nídra djúpslökun hvenær sem hentar fyrir þann sem hlustar. Ferðalagið með disknum er búið að vera yndislegt, vinna auðvitað en mjög gefandi vinna og alls kyns hugmyndir sem bara vöknuðu, kynntist frábæru fólki sem vildi allt fyrir mig gera. Ég er svo þakklát fyrir það.